Þjóðhyggja framsóknar


    Formaður Framsóknarflokksins Jón Sigurðsson skrifar athyglisverða
 grein í Blaðið 23 ágúst s.l undir fyrirsögninni, ,,hvað er þjóðhyggja?"


   Þar segir:

   ,,Þjóðhyggja og þjóðræknisstefna merkja í raun alveg hið sama sem
 þjóðleg félagshyggja en Framsóknarmenn hafa jafnan notað það
 hugtak um meginstefnu sína og grunnviðhorf. Með þessari orðanotkun
 er lögð áhersla á þau sögulegu og hugmyndafræðilegu staðreynd að
 þjóðleg félagshyggja Framsóknarmanna er ekki byggð á sósíalisma
 eða stéttarhyggju heldur á rætur í  sömu arfleifð og forsendum sem
 sjálfstæðisbaráttan og endurreisn íslenskrar menningar og samfélags.
 Þarna er jarðvegur og rætur Framsóknarstefnunnar í félagsmálahreyf-
 ingum og menningarstarfi, ungmennafélögum, samvinnufélögum,
 ræktunarsamtökum hvers konar og þjóðfrelsisstarfi.

     Og ennfremur:

    ,,Félagsmálahreyfingar stórþjóðanna miðuðust að miklu leyti við
 arf og vandamál iðnbyltingarinnar, með verkalýðshreyfingu í
 farabroddi, en samfélag smáþjóðanna einkenndust af öðrum
 atvinnuháttum og þar var þjóðfrelsisbaráttan mikilvægari en
 stéttarbarátta. - Þjóðhyggja er ekki kynþáttahyggja eða
 útlendingahatur, einangrunarstefna eða innilokunarstefna. Allt
 slíkt byggist á vanmetakennd, uppgjöf og flótta."

   Og að lokum:

   ,,Þjóðhyggjan er  það afl sem tendraði endurreisn og
 sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á sinni tíð. Því er ekki svo háttað að í
 stjórnmálunum takist á hægristefna/sérhyggja/einstaklingshyggja
 annars vegar og sósíalistísk jafnaðarstefna/stéttarhyggja hins
 vegar. Miðjan í íslenskum stjórnmálum er ekki einhver misjafnlega
 heppin blanda, rugl eða hræringur annara hugmynda eða stefnu-
 miða. Miðjan er sjálafstæður hugmyndarfræðilegur póll sem á sér
 sínar eigin stjórnmálasögulegu og hugmyndarsögulegu rætur,
 og það er arfleifð evrópskrar þjóðhyggju eða þjóðræknisstefnu
 undirokaðra smáþjóða álfunnar.
    Það  hefur aldrei verið brýnna en nú að þessi sjónarmið njóti
 sín  og hljóti umfjöllun og athygli, á tíma opnunar, hraðra
 breytinga, vaxandi viðskiptaumsvifa og alþjóðavæðingar. Til þess
 að geta tekið þátt í þessu öllu af innri styrk og metnaði þurfum við
 einmitt að vita vel hver við erum, hverjar eigin forsendur okkar eru,
 hvaðan við komum og hvert við viljum halda."

   Svo mörg voru þau orð. Hér kveður vissulega við nýjan tón hjá
 foringja Framsóknarmanna. Forveri hans í formannsstóli, Halldór
 Ásgrímsson, hafði allt aðra framtíðarsýn á stöðu Íslands  í
 samfélagi þjóðanna.  Klárlega fellur þjóðhyggjutúlkun Jóns mun nær
 grunnrótum Framsóknarstefnunar en sú mikla alþjóðahyggja
 sem Halldór stóð fyrir, sbr, í Evrópumálum, og sem flæmdi fjölda
 stuðningsmanna og kjósenda frá flokknum,  þ.m.t undirritaðann. 
 Hvort að hinn nýji tónn sem nú  hefur  verið kveðinn eigi eftir að
 endurheimta týndu sauðina heim  aftur á eftir að koma í ljós. -
 Tilraun Jóns til að skerpa á hugmyndafræðinni og þar með ímynd
 flokksins  sem þjóðlegs miðjuflokks  er hins vegar  mjög jákvæð í
 aðdraganda kosninga. -  Nú er bara eftir að sjá  hvort flokksþingið
 verði í takt við formanninn þannig að fyrrverandi  stuðningsmenn  og
 kjósendur komi og veiti elsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar
 verðugt brautargengi í vor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Góð skilgreining hef sömu reynslu og þú, vel mælt.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 6.2.2007 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband